Metþátttaka í utanvegahlaupi

Utanvegahlaup Kötlu Jarðvangs eða Hjörleifshöfðahlaupið var haldið um síðustu helgi í þriðja sinn og hefur verið stígandi í þátttöku frá upphafi. Nú voru alls 15 keppendur sem hlupu en það er þátttökumet.

Keppendur voru komnir víða að, m.a. frá Reykjavík, Hveragerði og úr Mýrdals -og Skaftárhreppi. Þetta verður að teljast nokkuð góð þátttaka í ljósi þess að nokkuð krefjandi aðstæður voru á staðnum. Höfðinn hvítur af snjó og hiti um frostmark en þó léttskýjað. Mjög kalt var á þátttakendum í upphafi hlaups enda með stífa norðanáttina í fangið fyrsta kílómetrann. Þegar á leið lygndi töluvert og var blíðskaparveður undir lok hlaups.

Í boði var að hlaupa tvær vegalengdir; 7 og 11 kílómetra. Hlaupið er ræst við áningarstað vestan megin við Höfðann og eru 7 kílómetrar hlaupnir í kringum höfðann á sandinum og er endamark á sama stað. Ellefu kílómetra leiðin er hlaupin í kring og svo hring upp á Höfðann, með um tvöhundruð metra hækkun, og endað á sama stað og ræst var.

Besta tímann af körlum í 7 kílómetrum átti Ástþór Jón Tryggvason en hann hljóp á tímanum 34 mínútum og 41 sekúnda, hjá konum var það Elva Óskarsdóttir á tímanum 42 mínútur og 40 sekúndum.

Besta tímann í 11 kílómetrum átti Daníel Reynisson en hann hljóp á 56 mínútum og 24 sekúndum, hjá konum var það Ásdís Björg Ingvarsdóttir á tímanum 63 mínútur og 25 sekúndur.

Hlaupið var framkvæmt í samstarfi Kötluseturs, Kötlu Jarðvangs og Ungmennafélagsins Kötlu. Mýrdalshreppur bauð öllum þátttakendum í sund að loknu hlaupi og Víkurskáli/Ströndin bauð öllum í kjötsúpu.

Þessi viðburður á sér orðinn fastan sess í hugum margra hlaupara og verður án vafa haldinn aftur að ári liðnu.

Fyrri greinMið-Ísland skemmtir í Þorlákshöfn
Næsta greinTvennt slasað eftir alvarlegt umferðarslys