„Mest spennandi að koma á Hvolsvöll“

Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Philadelphia Independence og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er þessa dagana að heimsækja krakka í sunnlenskum knattspyrnuliðum.

Hólmfríður heimsótti Selfoss fyrir skömmu, var í Vík í Mýrdal í gær og á Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli í dag. Þar var hún komin á heimavöll því þessi snjalla landsliðskona frá Uxahrygg á Rangárvöllum steig sín fyrstu skref í boltanum með KFR.

„Ég mun heimsækja mörg félög um allt land á þessari ferð minni en ég var mest spennt fyrir því að koma hingað. Þetta er heimabærinn minn og hér byrjaði ég að sparka í bolta. Mér finnst líka einstaklega gaman að því að sjá hvað það eru margar stelpur í fótbolta hérna á Hvolsvelli,“ sagði Hólmfríður í samtali við sunnlenska.is.

„Ég tala við krakkana um feril minn og hvernig ég er búin að ná mínum persónulega árangri. Það er hægt að ná langt þó að maður sé utan af landi. Þannig gerði ég það og ég get gefið krökkunum góð ráð.“

Að loknu spjalli við stelpurnar í KFR fylgdist Hólmfríður með æfingum 3., 4. og 5. flokks kvenna þar sem hún gaf góð ráð og hvatti stelpurnar áfram.

Eftir æfingu hafði hún svo nóg að gera við að sitja fyrir á myndum og gefa eiginhandaráritanir. Hún fór heldur ekki tómhent heim því Rangæingar færðu henni KFR treyju að gjöf og það þótti Hólmfríði sérstaklega vænt um.

Á morgun, miðvikudag, verður Hólmfríður í Þorlákshöfn, á fimmtudag í Hveragerði og á föstudag á Eyrarbakka.

Fyrri greinHúsaleigukostnaður vegna eldgoss styrktur
Næsta greinSkuldir lækka í fyrsta sinn