Mest lesnu íþróttafréttir ársins 2013

Íþróttaárið 2013 var viðburðaríkt á Suðurlandi. Þar voru konurnar fremstar í flokki í boltagreinunum en CrossFittarar og handboltaþjálfarar vöktu líka athygli.

1. Kveðjubréf frá Arnari
Arnari Gunnarssyni var sagt upp störfum sem þjálfara karlaliðs Selfoss í handbolta í apríl. Uppsögnin var umdeild og sunnlenska.is birti kveðjubréf frá Arnari til Selfyssinga, sem vakti mikla athygli.

2. Selfoss semur við landsliðskonu
Kvennalið Selfoss fékk þvílíkan liðsstyrk þegar landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir skrifaði undir samning við félagið nú í lok desember. Dagný reiknar með því að helmingur íbúa Hellu fari nú að mæta á leiki á Selfossi.

3. Valla-skóla-hreysti
Það var hart barist í Suðurlandsriðlinum í Skólahreysti grunnskólanna í mars. Vallaskóli á Selfossi sló þá við meisturum síðustu ára í Hvolsskóla.

4. Sindri í mennskuna
Knattspyrnudeild Umf. Selfoss framleiðir atvinnumenn á færibandi en þeirra yngstur er Sindri Pálmason. Hann var hálf hissa þegar Selfyssingar höfðu samþykkt samningstilboð frá dönsku bikarmeisturunum í Esbjerg nú í desember.

5. Haddi harðorður og hamingjusamur
Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari kvennaliðs Hamars, fór mikinn í viðtali við sunnlenska.is eftir að Hamar hafði unnið 1. deildina með yfirburðum og unnið Stjörnuna í úrslitakeppni. Þrátt fyrir áhuga liða „úti í heimi“ er Haddi enn að þjálfa Hamar sem er að gera góða hluti í úrvalsdeildinni.

6. Skjótur frami Björgvins
Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson hefur skotist með látum upp á stjörnuhimininn í CrossFit á Íslandi. Hann sigraði með yfirburðum á Íslandsmótinu í CrossFit í nóvember þrátt fyrir stuttan feril í greininni.

7. Ómar þjálfar Stokkseyringa
Gamla kempan Ómar Valdimarsson var ráðinn þjálfari karlaliðs Stokkseyrar í knattspyrnu. Stokkseyringar mættu til leiks á Íslandsmótinu eftir 21 árs fjarveru en náðu ekki að hala inn mörg stig á sínu fyrsta sumri.

8. Rangæingar framleiða fótboltakonur
Fjórar sunnlenskar knattspyrnukonur voru valdar til að taka þátt í æfingum U19 ára landsliðs kvenna í knattspyrnu í nóvember. Þær eru allar uppaldar hjá Knattspyrnufélagi Rangæinga.

9. Gunnar tók við af Arnari
Eins og svo oft áður skúbbaði sunnlenska.is þegar nýr þjálfari var kynntur til sögunnar hjá karlaliði Selfoss í handbolta. Gamla kempan Gunnar Gunnarsson tók við boltanum og hefur staðið sig vel það sem af er á sínu fyrsta ári með liðið.

10. Á kafi í snjó í lok ágúst
Veðrið árið 2013 var ekkert grín og því fengu rallýökumenn að kynnast í lok ágúst. Þar týndist rallýbíll á kafi í snjó uppvið Heklu en hann var handmokaður upp og fluttur til byggða.

Fyrri greinGuðmunda og Egill íþróttafólk ársins
Næsta greinÁrið gert upp á Suðurland FM