Mest lesnu íþróttafréttir ársins 2016

Í mest lesnu íþróttafréttum ársins koma meðal annars við sögu Jón Daði, Addi Braga, Einar Sverris, Þórir Ólafs, Viðar Örn, Gunni Bogga og þeir félagar Skarphéðinn og Njáll.

1. Jón Daði er „kominn heim“
Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti frábært mót í Frakklandi með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í sumar. Eftir mótið var sett upp risastór mynd af Jóni Daða í landsliðsbúningnum á stúkuna á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Fleiri fréttir af Jóni Daða voru mikið lesnar, til dæmis um vistaskipti hans til Úlfanna og þegar hann var valinn í EM-hópinn.

2. Selfoss semur við níu unga leikmenn
Níu ungir og efnilegir knattspyrnumenn skrifuðuundir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss í september. „Framtíðin hjá knattspyrnudeildinni er svo sannarlega björt,“ segir Adólf Ingvi Bragason, formaður deildarinnar.

3. Átta Selfyssingar í fimleikalandslið
Átta iðkendur frá fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss voru valdir í landslið Íslands sem keppti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikumí Slóveníu í október. Selfyssingarnir náðu frábærum árangri, unnu allir til verðlauna og tveir þeirra kræktu í Evrópumeistaratitil, sem vakti að sjálfsögðu einnig mikla athygli.

4. Árni Steinn og Einar Sverris heim í Selfoss
Handknattleiksmennirnir Árni Steinn Steinþórsson og Einar Sverrisson skrifuðu báðir undir tveggja ára samning við Selfoss í maí og sunnlenska.is færði heimsbyggðinni tíðindin fyrst allra. Árni hefur ekki leikið mikið með liðinu vegna meiðsla en Einar hefur verið í lykilhlutverki og Selfyssingar eru á góðu róli í Olís-deildinni.

5. Selfoss í úrvalsdeildina
Selfoss tryggði sér sæti í Olís-deild karla í handknattleik með frábærum sigri á Fjölni 24-28 í oddaleik í Dalhúsum í Grafarvogi í byrjun maí. „Hringdu í mig seinnipartinn á morgun,“ sagði Þórir Ólafsson í opinskáu viðtali við sunnlenska.is.

6. Einkaviðtal: Viðar Örn á ströndinni
Knattspyrnukappinn Viðar Örn Kjartansson var seldur frá Malmö í Svíþjóð til Maccabi Tel-Aviv í Ísrael í haust. Hann kann vel við sig í Ísrael eins og lesendur sunnlenska.is komust að þegar stjörnublaðamaðurinn Tómas Kjartansson settist niður með Viðari á ströndinni og tók við hann einkaviðtal.

7. Mögnuð tilþrif á ÓB-mótinu
Um 450 strákar á aldrinum 11-12 ára kepptu á ÓB-mótinu á Selfossi í ágúst. og mátti sjá mögnuð tilþrif innan vallar og mikil spenna var í mörgum leikjum. Hrunamenn gengu glaðir frá mótinu en þeir sigruðu í sínum riðli og lyftu bikar í mótslok.

8. „Hamingjusamur, mjög glaður, sáttur, stoltur“
Það vantaði ekki lýsingarorðin þegar Gunnar Borgþórsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, kom í viðtal eftir frábæran sigur Selfyssinga á KR í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar. Selfyssingar fóru svo alla leið í undanúrslit keppninnar þar sem þeir töpuðu fyrir Val á heimavelli.

9. Árborgarar gefa Abel sektarsjóðinn
Leikmenn Knattspyrnufélags Árborgar ákváðu snemma árs að leggja sitt af mörkum þegar Eyjamenn hófu söfnun til styrktar markverðinum Abel Dhaira eftir að hann greindist með krabbamein. Árborgarar gáfu sektarsjóðinn sinn í söfnunina. Abel lést þann 26. mars eftir erfið veikindi.

10. Umf. Njáli vikið úr HSK
Skarphéðinn vísaði Njáli á dyr í upphafi árs, en þá var Ungmennafélaginu Njáli í Vestur-Landeyjum vikið úr Héraðssambandinu Skarphéðni.