Mest lesnu íþróttafréttir ársins 2015

Í mest lesnu íþróttafréttum ársins koma meðal annars við sögu Erik Olson, Stefán Árnason, Fanndís Friðriks, Gumma, Hilmar Guðlaugs, Dagný Brynjars, Zoran og Gunni Borg (Bogg).

1. „Hælsærið hjá Fanndísi“
Selfyssingar voru á góðri siglingu í Pepsi-deild kvenna þangað til liðið tapaði fyrir Breiðabliki á útivelli í 7. umferð. Sigurmarkið kom úr umdeildri vítaspyrnu og reyndar voru Selfyssingar óánægðir með ýmislegt fleira í kringum leikinn.

2. Zoran hættir með Selfossliðið
Zoran Miljkovic var boðið að hætta sem þjálfari karlaliðs Selfoss á miðju tímabili eftir dapurt gengi liðsins. Hann þáði boðið og Gunnar Borgþórsson tók við. Allar nýjar fréttir af þjálfaramálum eru mikið lesnar og það átti líka við þegar Gunnar var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála og Valorie O’Brien þjálfari kvennaliðsins.

3. Dagný gengin til liðs við Selfoss
Ein stærstu og óvæntustu tíðindin í kvennaknattspyrnunni í sumar voru þau að Dagný Brynjarsdóttir gekk til liðs við Selfoss í maí frá þýsku meisturunum í Bayern München. Dagný var að sjálfsögðu einn besti leikmaður Íslandsmótsins og leikmaður ársins á Selfossi.

4. Tanja ráðin yfirþjálfari
Breytingar urðu á þjálfaraliði fimleikadeildar Selfoss í sumar þegar Tanja Birgisdóttir var ráðin yfirþjálfari. Tanja hefur starfað lengi hjá deildinni og það hafa þær líka gert, systurnar Gerður Ósk og Rakel Dögg Guðmundsdætur sem tóku við dansþjálfun hjá fimleikadeildinni á sama tíma.

5. Mögnuð uppákoma fyrir leik Mílan
Þeir voru svo spenntir fyrir leiknum, dómararnir sem áttu að dæma leik Gróttu og Mílan í 1. deild karla í handbolta í janúar að þeir óku á Selfoss til þess að dæma leikinn. Leikurinn fór hins vegar fram á Seltjarnarnesi, en þessi langi rúntur austur fyrir fjall fór bara vel í dómaradúóið, sem mætti 45 mínútum of seint til leiks.

6. „Við stefnum ennþá hærra“
Hilmar Guðlaugsson var ráðinn annar af þjálfurum kvennaliðs Selfoss í handbolta í maí. Hann gerði þriggja ára samning við deildina og stefndi hátt með liðið. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur Hilmari verið sagt upp störfum, að hluta til að minnsta kosti, þó að stjórn deildarinnar hafi ekki ennþá gefið neitt út um það opinberlega.

7. „Þetta var okkar leikur“
Kvennalið Selfoss var grátlega nálægt því að koma með fyrsta stóra bikarinn í fótboltanum yfir brúnna í ágúst. Liðið komst í 1-0 í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Stjörnunni en missti sigurinn frá sér á lokamínútunum og tapaði 2-1. Það féllu tár innan vallar og utan í leikslok.

8. Stefán ráðinn þjálfari Selfoss
Stefán Árnason var ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta í sumar. Stefán hefur farið ágætlega af stað með Selfossliðið í 1. deildinni en þetta er í fyrsta sinn sem þessi ástríðufulli þjálfari stýrir meistaraflokksliði.

9. Árborgarar gáfu Létti sigurmarkið
Það var mikil dramatík þegar Árborg tapaði sínum fyrsta leik í 4. deild karla í knattspyrnu í sumar, þegar liðið mætti Létti í lok júlí. Árborg jafnaði 2-2 á lokasekúndunum en Léttismenn töldu markið illa fengið og því leyfðu Árborgarpiltarnir andstæðingunum að taka miðju og labba með boltann í netið hinu megin. Góðir drengir.

10. „Ég er í sjokki!“
Erik Olson, þjálfari karlaliðs FSu í körfubolta, var hissa og glaður þegar FSu tryggði sér sæti í úrvalsdeild eftir magnað einvígi gegn nágrönnum sínum í Hamri. Úrslitin réðust í oddaleik í Hveragerði á fallegu aprílkvöldi.