Mest lesnu íþróttafréttir ársins 2014

Mest lesna íþróttafrétt ársins á sunnlenska.is fjallaði um það þegar Kári Steinn Karlsson stakk tíu knattspyrnumenn af í Brúarhlaupinu.

1. „Gaurinn er ekki mennskur“
Liðsmenn Knattspyrnufélags Árborgar skoruðu á Kára Stein Karlsson í Brúarhlaupinu í ágúst. Knattspyrnumennirnir hlupu boðhlaup í kapp við Kára. Það þarf ekki að taka það fram að tengdasonur Selfoss rústaði Árborgarstrákunum.

2. „Ég er ekki vítaspyrnusérfræðingur“
Kvennalið Selfoss í knattspyrnu náði frábærum árangri á vellinum í sumar. Hápunkturinn var árangur liðsins í bikarkeppni KSÍ þar sem liðið tapaði í úrslitaleik gegn Stjörnunni. Markvörðurinn Alexa Gaul var hetja liðsins í undanúrslitunum gegn Fylki þegar hún varði þrjár vítaspyrnur og skoraði sjálf úr einni.

3. Selfyssingar semja við Birki
Selfyssingar hafa verið duglegir við að ala upp öfluga knattspyrnumenn síðustu árin. Í febrúar gerðu þeir vínrauðu þriggja ára samning við varnarmanninn Birki Pétursson. Hann er 18 ára gamall, uppalinn hjá félaginu og á augljóslega stóran aðdáendahóp því fréttin af samningnum var lesin aftur og aftur – og aftur.

4. Sigríður kosin formaður
Starfið hjá Íþróttafélaginu Garpi er með miklum ágætum en í apríl var Sigríður Arndís Þórðardóttir í Þjóðólfshaga kosin formaður félagsins. Fjárhagur félagsins er traustur og munar þar mestu um flöskusöfnun Guðna á Þverlæk.

5. Sindri skrifaði undir hjá Esbjerg
Í byrjun árs skrifaði 17 ára gamall knattspyrnumaður, Sindri Pálmason frá Selfossi, undir tveggja og hálfs árs samning við danska úrvalsdeildarliðið Esbjerg. Sindri æfir með U19 ára liði félagsins en hann hefur einnig verið fastamaður í U19 ára landsliði Íslands á árinu.

6. Engilbert sæmdur gullmerki UMFÍ
Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins, var sæmdur gullmerki Ungmennafélags Íslands, á héraðsþingi HSK sem haldið var á Borg í Grímsnesi í mars. Engilbert hefur verið framkvæmdastjóri HSK undanfarin 23 ár.

7. Þjálfarinn hélt hreinu í öruggum sigri
Knattspyrnufélag Árborgar var í markmannsvandræðum þegar liðið mætti Afríku í Lengjubikar karla í apríl. Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari liðsins, tók það því sjálfur að sér að fara í markmannshanskana og stóð sig með afbrigðum vel. Guðjón hélt hreinu í sínum fyrsta leik sem markmaður og Árborg sigraði 4-0.

8. „Eins og að spila á útivelli að spila á Selfossvelli“
Gunnar Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, var ekki ánægður með stuðninginn og þolinmæðina hjá Selfyssingum í stúkunni í sumar. Eftir jafntefli við topplið Leiknis sagði Gunnar að það væri alltaf eins og að spila á útivelli þegar liðið spilaði á Selfossvelli. Gunnar var látinn fara frá félaginu í lok móts.

9. Tvöfaldur sunnlenskur sigur
Snorri Þór Árnason sigraði með tilþrifum í sérútbúna flokknum í Hellutorfærunni sem haldin var í maí. Í lok sumars stóð hann svo uppi sem Íslandsmeistari og það gerði einnig Ívar Guðmundsson í götubílaflokknum. Fullt hús hjá Sunnlendingum.

10. Feðgar dæmdu fótboltaleik
Sá skemmtilegi atburður átti sér stað á JÁVERK-vellinum á Selfossi í ágúst að feðgar dæmdu leik Árborgar og Skínanda í 4. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þarna voru á ferðinni Sveinbjörn Másson og synir hans, Karel Fannar og Adam Örn. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem feðgar dæma opinberan leik í meistaraflokki á Íslandi.

Fyrri greinÞrír framkvæmdastjórar ráðnir á HSu
Næsta greinAra sagt upp hjá Hamri – Hallgrímur tekur við