„Mér finnst 4-0 alveg nóg“

„Þetta var svona eins og við mátti búast, svona leikir eru alltaf erfiðir. Við vissum að þeir myndu draga sig mjög aftarlega á völlinn og það yrði kannski ekki mjög auðvelt að búa til færi.“

Þetta sagði Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir sigur Selfyssinga á 3. deildarliði KB í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Selfoss sigraði 4-0.

„Þetta er alltaf spurning um að koma fyrsta markinu inn þó að við höfum kannski lifað svolítið hættulegu lífi snemma leiks þegar KB maður komst einn innfyrir. Þegar við erum komnir í 2-0 þá líður mönnum ögn betur með þá stöðu og komast kannski upp með að gera bara það sem þarf til að sigra.“

Logi skipti fljótlega yfir í þriggja manna varnarlínu en það var þó ekki tilkomið af góðu, því bakvörðurinn Ivar Skjerve fór af velli meiddur á hné.

„Það var mikilvægt að komast frá þessum leik með sigri, en verra að Ivar skyldi meiðast og við vitum ekki alveg hvað það er. En við erum ánægðir með að vera komnir áfram og ég get ekki kvartað yfir framlagi liðsins,“ sagði Logi.

„Menn voru að reyna að gera vel en það er svolítið önnur taktík sem við þurfum að spila á móti þessu liði heldur en við erum að spila á móti liðunum í efstu deild. Þar þurfum við sjálfir að vera aðeins aftar á vellinum og við erum ekki vanir að koma fram og pressa. Við gerðum það ágætlega á síðasta ári en það sást að sá vani var farinn. Við vildum fá meiri pressu, en við vorum að skapa færi og mér finnst 4-0 alveg nóg. Ég vil þá bara að við höldum áfram að skapa færi og skorum í næsta leik.“