„Mér að kenna“

„Við vorum inni í leiknum alveg framundir lok 3. leikhluta og það var dýrt að missa Bjarna útaf,“ sagði Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Laugdæla eftir tapið gegn Þór.

Staðan var 70-62 þegar Bjarni Bjarnason fékk sína 5. villu með 12 mínútur eftir á klukkunni. Leikur Laugdæla hrundi um leið og Bjarni fór útaf.

„Hann er heilinn í okkar sóknarleik en þegar hann fer útaf þurfa aðrir að stíga upp og taka ábyrgð. Þetta er ekkert einum eða tveimur leikmönnum að kenna. Ég tek á mig öll töp og ófarirnar síðustu tólf mínúturnar voru mér að kenna,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þórsarar eru rosalega sterkir og það er erfitt að eiga við þá. Þeir spila hratt og eru með góða unga stráka og góða útlendinga. Við erum hins vegar með tiltölulega óreynt lið og fæstir okkar hafa reynslu úr deildarkeppni,“ sagði Pétur ennfremur.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum og náðu 14 stiga forskoti en Laugdælir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í fjögur stig í 3. leikhluta. „Við ákváðum að við þyrftum að vinna baráttuna og varnarleikinn ef við ætluðum að komast inn í þetta. Þórsarar skoruðu örugglega helminginn af sínum stigum úr hraðaupphlaupum þegar við erum að tapa boltanum í sókninni. Vörnin var fín hjá okkur lengst af en við erum ekki nógu agaðir sóknarlega, töpum boltanum og fáum ódýrar körfur í bakið. En mitt lið gefst aldrei upp. Við hendum okkur á alla lausa bolta allan leikinn – og jafnvel eftir leik líka,“ sagði þjálfarinn léttur í bragði.

Lætin í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn voru mikil í kvöld þar sem Græni drekinn spúði hvatningarópum inn á völlinn. Pétur fékk sinn skerf frá þessu öfluga stuðningsmannaliði Þórs. „Áhorfendurnir voru skemmtilegir og það er fín reynsla fyrir okkur að koma hingað í lætin. Ég hef endalaust gaman af því þegar þeir láta mig heyra það. Ég fíla það bara,“ sagði Pétur að lokum.

Fyrri greinFSu áfram á sigurbraut
Næsta grein„Velgengnin komin inn í kollinn á mönnum“