„Menn eru klárir í fyrsta leik“

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmót karla í handbolta hefst í dag og fyrsti leikur mótsins er viðureign Fram og Selfoss í Framhúsinu.

Það hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópi Selfoss þar sem lykilmenn hafa horfið á braut og ungum og uppöldum Selfyssingum er ætlað að taka við keflinu undir stjórn nýs þjálfara, heimamannsins Þóris Ólafssonar.

Þórir á von á skemmtilegum handboltavetri og segir að Selfyssingar séu til í slaginn.

„Það leggst bara vel í okkur að þetta sé að byrja. Við erum búnir að vera í undirbúning í rúman mánuð og ekki hægt að segja annað en að menn bíða spentir eftir fyrsta leik, bæði ég sem þjálfari og líka ungir leikmenn sem eru að taka við og stíga stór skref á sínum ferli,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is.

Hergeir Grímsson er farinn í Stjörnuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Standið á hópnum gott
Stærstu tíðindin á félagaskiptamarkaðnum í sumar voru þegar Hergeir Grímsson fór í Stjörnuna en einnig er Tryggvi Þórisson farinn í atvinnumennsku til Svíþjóðar og Alexander Egan genginn í raðir Fram, auk þess sem markvörðurinn Sölvi Ólafsson er hættur. Þá sagði þjálfarinn Halldór Jóhann Sigfússon upp störfum og tók við þjálfun Tvis Hol­ste­bro í dönsku úrvalsdeildinni.

„Vissulega eru þetta reynslumiklir leikmenn sem eru búnir að vera hérna lengi og hafa unnið titla hér. Í staðinn koma inn í hópinn ungir menn úr akademíunni og ég er hvergi banginn við að nota þeirra krafta því ég þekki þá vel. Standið á hópnum í heild sinni er líka almennt gott, enginn að glíma við alvarleg meiðsli og við höfum náð að dreifa álaginu vel á undirbúningstímabilinu þegar menn hafa verið eitthvað hnjaskaðir,“ segir Þórir en Selfyssingar gengu í gegnum ótrúlegt meiðslatímabil á síðasta vetri. „Menn eru klárir í fyrsta leik.“

Ísak Gústafsson hefur leikið vel á undirbúningstímabilinu og var valinn besti leikmaður Ragnarsmótsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Okkar að afsanna spána
Selfyssingum er spáð 7. sætinu í deildinni. Þórir segir að mögulega sé spáin raunhæf en það sé hans og leikmannanna að afsanna hana.

„Við erum ekki búnir að setja okkur neitt sameiginlegt markmið. Menn eru sjálfsagt með markmið hver og einn og við viljum allir ná eins hátt og mögulegt er. Það verður okkar að afsanna þessa spá. Mig minnir að við höfum náð að toppa spána sex eða sjö ár í röð. Kannski er þetta eðlileg spá miðað við mannabreytingarnar en annars erum við ekkert að velta okkur upp úr þessu,“ segir Þórir sem á von á spennandi keppni í deildinni í vetur og góðri stemningu hjá stuðningsmönnum Selfoss.

„Ég á von á jafnri og góðri deild. Það hefur fylgt okkur síðustu ár að stuðningsmenn okkar hafa verið duglegir við að fylla hallir, bæði hér heima og á útivelli. Ég á ekki von á öðru en að við munum fá frábæran stuðning áfram og það skiptir strákana í liðinu miklu máli,“ segir Þórir að lokum.

Selfossliðunum spáð 7. og 8. sæti

Fyrri grein75 ára afmælismálþing RARIK á Selfossi
Næsta greinÞG verk átti eina tilboðið í 2. áfanga Stekkjaskóla