Meistararnir stungu af í seinni hálfleik

Luciano Massarelli og Ronaldas Rutkauskas voru öflugir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs áttu ekki í teljandi vandræðum með að klára Vestra á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Liðin mættust á Ísafirði og eftir jafnan fyrri hálfleik var staðan 45-42 í leikhléi, Vestra í vil.

Þórsarar sýndu hins vegar sparihliðarnar í seinni hálfleiknum, byrjuðu þriðja leikhluta á góðum varnarleik og fumlausum sóknarleik, sem þeir fylgdu svo á eftir í 4. leikhluta. Að lokum var munurinn tuttugu stig, 81-101.

Luciano Massarelli var stigahæstur Þórsara með 29 stig en Ronaldas Rutkauskas og Glynn Watson áttu einnig prýðilegan leik, ásamt Dananum Daniel Mortensen, sem var öflugur á báðum endum vallarins.

Þórsarar hafa nú endurheimt toppsætið í deildinni og eru með 20 stig, eins og Keflavík. Njarðvík er í 3. sæti með 18 stig og á leik til góða í kvöld gegn Val. Vestri er í 11. sæti með 6 stig.

Tölfræði Þórs: Luciano Massarelli 29, Glynn Watson 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 15/9 fráköst, Daniel Mortensen 12/11 fráköst/5 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 7, Tómas Valur Þrastarson 5, Emil Karel Einarsson 5/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 3, Ísak Júlíus Perdue 2.

Fyrri greinTveir lyfjaðir stöðvaðir – og ekki í fyrsta sinn
Næsta greinHöttur marði Selfoss í framlengingu