Meistararnir sigruðu í Hveragerði

Björn Ásgeir Ásgeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Hamars tók á móti Íslandsmeisturum Tindastóls í úrvalsdeild karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Gestirnir unnu öruggan sigur 81-106.

Hamar byrjaði mun betur og skoraði fyrstu 12 stigin en Tindastóll jafnaði 18-18 og þannig var staðan eftir 1. leikhluta. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta en Tindastóll skoraði sex síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi 36-43 í hálfleik.

Hvergerðingar hófu seinni hálfleikinn ágætlega en Tindastóll var skrefinu á undan og smátt og smátt jókst bilið. Munurinn var orðinn 20 stig snemma í 4. leikhluta og gestirnir sigldu sigrinum örugglega í höfn eftir það.

Franck Kamgain var stighæstur Hvergerðinga með 24 stig, Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 22 stig og sendi 8 stoðsendingar, Egill Friðriksson skoraði 11 stig, Danero Thomas 10, Ebrima Jassey Demba skoraði 8 stig og tók 9 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 6 stig og tók 12 fráköst.

Tindastóll er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en Hamar á botninum án stiga nú þegar deildarkeppnin er hálfnuð.

Fyrri greinOpið bréf til vegamálastjóra
Næsta greinGestirnir sterkari á lokakaflanum