Meistararnir með bakið upp við vegg

Luciano Massarelli og Ronaldas Rutkauskas fara yfir málin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs eru 2-0 undir í einvíginu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Liðin mættust að Hlíðarenda í gærkvöldi og þar sigruðu Valsmenn 87-75.

Leikurinn var kaflaskiptur en Valsmenn voru heilt yfir sterkari og höfðu frumkvæðið lengst af. Þórsarar eltu og áttu nokkur ágæt áhlaup en Valsmenn fundu yfirleitt svör við þeim og kæfðu áhlaup Þórsara með stórum körfum.

Staðan var 47-39 í hálfleik og seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, Þórsarar eltu allan tímann en náðu ekki að brúa bilið, sem varð minnst eitt stig snemma í 3. leikhluta.

Þriðji leikurinn verður í Þorlákshöfn á þriðjudagskvöld klukkan 20:15. Með sigri þar munu Valsmenn sópa meisturunum í sumarfrí.

Tölfræði Þórs: Luciano Massarelli 19/6 stoðsendingar, Glynn Watson 19/8 fráköst, Daniel Mortensen 15, Kyle Johnson 7/6 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 7/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Ragnar Örn Bragason 2.

Fyrri greinEkki leikur fyrir hjartveika
Næsta greinÞörf á vandaðri stjórnsýslu í Hveragerði