Meistararnir í góðum málum

Kyle Johnson skoraði 29 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs fóru á kostum í kvöld þegar þeir lögðu Grindavík í þriðju viðureign einvígisins í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Lokatölur urðu 102-79 og Þórsarar leiða 2-1 í einvíginu.

Þór byrjaði leikinn af krafti og náðu fljótlega góðu forskoti. Grindavík bætti varnarleikinn í 2. leikhluta en Þórsarar voru yfir allan tímann og leiddu í leikhléi, 55-48. Heimamenn höfðu svo algjöra yfirburði í seinni hálfleik. Grindavík átti nokkrar góðar rispur en Þórsarar svöruðu öllum áhlaupum þeirra með enn betri sóknarleik og þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var öll spenna úr leiknum.

Kyle Johnson var stigahæstur Þórsara með 29 stig en Glynn Watson var framlagshæstur með 22 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst.

Fjórði leikur liðanna verður í Grindavík á föstudaginn langa klukkan 19:15 og með sigri þar tryggja Þórsarar sér sæti í undanúrslitum.

Tölfræði Þórs: Kyle Johnson 29/7 fráköst, Glynn Watson 22/7 fráköst/10 stoðsendingar, Daniel Mortensen 19/9 fráköst, Luciano Massarelli 9/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 9, Emil Karel Einarsson 5, Tómas Valur Þrastarson 3, Ragnar Örn Bragason 3, Tristan Rafn Ottósson 3.

Fyrri greinFjölbreytt og kröftugt atvinnulíf
Næsta greinHveragerði best í heimi