Meistaramóts Íslands í frjálsum á Selfossvelli um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fullorðinna mun fara fram á Selfossvelli nú um helgina. Rúmlega 200 keppendur eru skráðir til leiks og þar á meðal eru helstu frjálsíþróttakempur þjóðarinnar.

Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni er t.d. skráð í spjótkast á mótinu en hún freistar þess að ná lágmarki á HM í frjálsum sem fer fram í ágúst. Á meðal keppenda verður einnig Ari Bragi Kárason úr FH sem að sjálfsögðu stefnir á að bæta glóðvolgt Íslandsmet sitt í 100m hlaupi frá því á sunnudaginn. Það er því ljóst að það verður nóg um að vera á vellinum.

Undankeppnir fara fram fyrir hádegi báða daga en aðalkeppnin fer að mestu fram eftir kl 13:00.

HSK/Selfoss sendir fjölmennt lið til keppni svo það er um að gera að gera sér ferð á völlinn og hvetja okkar fólk og sjá þá bestu í leiðinni. Samhliða Meistaramótinu fer fram Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum.

Fyrri greinEinar Bárðar ráðinn samskiptastjóri
Næsta greinGefa allan aðgangseyrinn til Suðra