Meira Pepsi nánast tryggt

Kvennalið Selfoss fór langleiðina með að tryggja sér áframhaldandi sæti í Pepsi-deildinni í knattspyrnu með því að leggja Fylki á útivelli, 2-3, í spennuleik í kvöld.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og gerðu sig líkleg á upphafsmínútunum enda um einn af úrslitaleikjum botnbaráttunnar að ræða.

Selfoss komst yfir á 21. mínútu eftir frábært framtak hjá Guðmundu Brynju Óladóttur sem renndi boltanum inn í vítateiginn á Evu Lind Elíasdóttur sem kláraði færið sitt vel með vinstri fæti.

Eftir markið komst Fylkisliðið meira inn í leikinn og pressaði Selfyssinga stíft næstu mínúturnar. Selfossliðið átti erfitt með að mynda burðugar sóknir á þessum kafla en á 41. mínútu fékk liðið aukaspyrnu fyrir utan vítateig Fylkis sem Valorie O’Brien skoraði úr og kom Selfoss í 0-2.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks skoraði Guðmunda glæsilegt mark þegar hún fékk boltann í vítateignum frá Evu Lind með varnarmann Fylkis í bakinu. Guðmunda sneri laglega á varnarmanninn og skoraði af öryggi, 0-3.

Selfyssingar slökuðu full mikið á eftir þriðja markið en Fylkiskonur bættu að sama skapi í sóknina. Helsta vopn heimaliðsins voru langar sendingar yfir í framlínuna án þess að mikið kæmi út úr því uppleggi. Þær minnkuðu þó muninn á 54. mínútu með marki Önnu Bjargar Björnsdóttur úr vítaspyrnu eftir að boltinn virtist faria í hendina á Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur inni í vítateig Selfoss en Selfyssingar voru mjög ósáttir við ákvörðun dómarans.

Fylkiskonur voru ákveðnari eftir að hafa minnkað muninn og sóttu stíft að Selfyssingum en þær vínrauðu létu engan bilbug á sér finna og héldu boltanum vel innan liðsins á köflum. Anna Björg minnkaði muninn í 2-3 með fallegu marki á 70. mínútu og síðustu tuttugu mínúturnar voru barátta upp á líf og dauða þar sem bæði lið sýndu góð tilþrif en Selfosskonur héldu út og fögnuðurinn var mikill í leikslok.

Þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni eru Selfyssingar í 6. sæti með 16 stig en þar á eftir koma FH með 15, Fylkir og Afturelding með 12 og KR með 8. KR kemst ekki uppfyrir Selfoss en Fylkir og Afturelding þurfa fjögur stig úr síðustu tveimur leikjunum ætli liðið sér að slá þeim vínrauðu við. Selfoss á eftir að mæta tveimur efstu liðum deildarinnar í síðustu umferðunum og stuðullinn á að Selfoss nái í stig í þeim leikjum er í hærri kantinum. Fallbaráttan er því ennþá galopin en Selfossliðið er í góðri stöðu eftir frábæran sigur í kvöld.