Meiðsli Murphy vendipunkturinn

Kvennalið Hamars beið lægri hlut gegn toppliði Keflavíkur í Iceland Express deildinni í körfubolta í gærkvöldi, 61-79.

Heimakonur voru lengi í gang, Keflavík komst í 4-16 en leikur Hamars lagaðist rétt fyrir hálfleik og náðu þær að jafna 30-30. Samantha Murphy var ekki að setja neitt af þriggja stiga skotum sínum fyrir Hamar og Keflvíkingum var nánast fyrirmunað að skora á vítalínunni þar sem ein sjö víti fóru forgörðum. Mikið munaði um að Jaleesa Butler var komin með þrjár villur fljótlega í 2. leikhluta og fór á bekkinn en öðrum Keflavíkurstelpum gekk erfiðlega að skora.

Eftir hlé var allt í járnum og Hamar yfirleitt fyrri til að skora. Bitleysi var í sókn Keflavík og Hamar náði nokkrum skyndisóknum sem skilaði fjögurra stiga forustu Hamars. Þá varð vendipunktur leiksins þegar Samantha Murphy var borin af velli með slæm ökklameiðsli. Þetta var mikið áfall fyrir Hamar sem hélt þó forystunni fram að 4. leikhluta, 51-48.

Keflavík skellti á pressuvörn í 4. leikhluta sem gaf vel og heimastúlkur hittu illa. Staðan breittist á stuttum kafla í 10 stiga forustu Keflavíkur og ekki var aftur snúið, því gestirnir unnu síðasta leikhlutann 10-31.

Leikurinn endaði 61-79 og Keflavík heldur toppsætinu en Hamarskonur sýndu flott tilþrif í þremur fyrstu leikhlutunum .

Rafrænir örðugleikar urðu til þess að tölfræði leiksins hefur ekki verið birt.