Með níu fingur á titlinum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Selfoss er komið með níu fingur á meistaratitilinn í 1. deild kvenna í handbolta eftir öruggan sigur á ungmennaliði Fram á Selfossi í dag, 31-22.

Selfoss er nú með 32 stig í efsta sæti deildarinnar og getur tryggt sér sigur í deildinni næstkomandi fimmtudag þegar liðið heimsækir ungmennalið ÍBV til Vestmannaeyja.

Leikurinn í dag var í þinglýstri eign Selfyssinga frá upphafi til enda. Þær vínrauðu voru komnar með níu marka forskot í hálfleik, 17-8, og Fram-U náði ekki að minnka muninn í seinni hálfleik.

Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Inga Sól Björnsdóttir voru markahæstar Selfyssinga í dag með 6 mörk, Roberta Strope og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu 4 mörk, Rakel Hlynsdóttir 3, Hólmfríður Anna Steinsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir 2 og þær Tinna Sigurrós Traustadóttir, Emilía Ýr Kjartansdóttir, Katrín Una Hólmarsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Fyrri greinUppsveitir skoruðu tólf
Næsta greinSelfoss-U lokaði tímabilinu laglega