Með eitt stig til baka eftir Suðurstrandarveginum

Valdimar Jóhannsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar sitja áfram á toppi Lengjudeildar karla í knattspyrnu eftir 2-2 jafntefli við Grindavík á útivelli í kvöld.

Leikurinn fór rólega af stað og færin voru fá, þar til á 18 mínútu að Valdimar Jóhannsson slapp innfyrir Grindavíkurvörnina með boltann og skoraði af öryggi. Selfyssingar voru sterkari það sem eftir lifði seinni hálfleiks en tókst ekki að skapa sér nógu góð færi.

Staðan var 0-1 í hálfleik en eftir sjö mínútur í seinni hálfleik jöfnuðu Grindvíkingar metin með lipurri sókn sem var eflaust beint upp af teikniborði Alfreðs Elíasar Jóhannssonar þjálfara liðsins. Selfyssingar létu þetta ekki slá sig út af laginu og komust aftur yfir þremur mínútum síðar þegar Gonzalo Zamorano lagði boltann fyrir sig utan teigs og boltinn sveif yfir markvörð Grindavíkur, eftir viðkomu í varnarmanni.

Lokakaflinn reyndist Selfyssingum erfiður. Grindavík jafnaði með einföldu skallamarki úr aukaspyrnu á 72. mínútu og heimamenn fengu síðan tvö þrjú dauðafæri á lokakaflanum til þess að klára leikinn.

Í uppbótartímanum fékk Dean Martin, þjálfari Selfoss, rautt spjald fyrir að sýna boltakúnstir á boðvangnum í stað þess að láta Grindvíkingum eftir boltann og hann verður því í leikbanni þegar Selfoss tekur á móti Vestra á þriðjudaginn.

Inn vildi boltinn ekki og liðin skiptu með sér stigunum. Selfoss hefur 18 stig í toppsætinu en Grindavík er í 6. sæti með 14 stig.

Fyrri greinBryggjuhátíðin um helgina
Næsta greinLitlu húsin flutt úr miðbænum