Með gæsahúð frá upphafi til enda

Kvennalið Selfoss tapaði 4-0 gegn Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikarsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag. Talið er að rúmlega 1300 stuðningsmenn Selfoss hafi verið á leiknum.

Stemmningin var magnþrungin í upphafi leiks en Selfyssingar áttu stúkuna og héldu uppi frábærri stemmningu. Áhorfendamet var slegið á bikarúrslitaleik kvenna en 2.011 áhorfendur voru á leiknum, flestir frá Selfossi.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill lengst af, Stjarnan var meira með boltann en Selfyssingar spiluðu fína vörn og áttu ágætar rispur fram á við þess á milli. Á 44. mínútu komust Stjörnukonur yfir, algjörlega uppúr þurru. Boltinn barst fyrir markið frá vinstri og Harpa Þorsteinsdóttir skallaði boltann í netið en Alexa Gaul rann í blautu grasinu og náði ekki að komast fyrir boltann.

Staðan var 1-0 í hálfleik og það var lítið að frétta lengst af fyrri hálfleik þar sem hvorugt liðið fékk teljandi færi. Um miðjan síðari hálfleik gerðu Selfyssingar breytingu og Blake Stockton var færð í framlínuna. Hún hafði átt góðan leik í vörninni og geymt Hörpu Þorsteins í buxnavasanum.

Við þessa breytingu komst rót á varnarleik Selfoss og Stjörnukonur nýttu sér þær glufur til þess að skora þrjú mörk til viðbótar á síðustu tíu mínútunum.

„Það var leiðinlegt að tapa 4-0 þegar staðan er 1-0 á 80. mínútu,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Þetta var óþarflega stór sigur hjá þeim og gefur ekki rétta mynd af leiknum, við vorum ekki svona lélegar. Við erum inni í leiknum lengst af og hefðum alveg getað skorað eins og þær,“ sagði Guðmunda og bætti við að Selfyssingum hefði gengið erfiðlega að skapa færi.

„Stjarnan er með landsliðsmenn í vörninni og það er ástæða fyrir því að þær eru í landsliðinu, þær eru mjög góðar og Stjarnan er með þvílíkt flott lið,“ bætti Guðmunda við en þrátt fyrir tapið var hún ánægð með upplifunina.

„Það var alveg geðveikt að upplifa þetta. Stuðningsmennirnir voru frábærir og ég var með gæsahúð þegar ég labbaði inn á völlinn og er með hana ennþá. Það er þvílíkt gaman að stuðningsmenn okkar og bæjarfélagið taki svona mikinn þátt í þessu. Við þurftum á því að halda því við erum litla liðið og stuðningsmennirnir áttu stóran þátt í því að við héldum svona lengi í við þær,“ sagði Guðmunda að lokum.


Þrátt fyrir tapið geta Selfosskonur unað sáttar við sitt eftir frábæra upplifun á Laugardalsvellinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÍslenski bærinn opnar formlega í dag
Næsta grein„Ég hef aldrei verið jafn stoltur“