Með sömu markmið og KR

Selfyssingar hefja leik í Pepsi deild karla á þriðjudagskvöld og Guðmundur Benediktsson, þjálfari, segir liðið ætla að njóta þess að spila í efstu deild.

„Ég get ekki sagt annað en að þetta leggist vel í mig og ég hlakka mikið til að þetta byrji. Við erum búnir að æfa og bíða í allan vetur eftir þessu og nú er það bara undir okkur komið að sýna að við séum tilbúnir í slaginn,“ segir Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

Nokkrir leikmanna Selfoss hafa glímt við meiðsli í vetur og í síðustu viku var meirihluti miðjumanna liðsins á sjúkralistanum. „Við höfum verið í basli með meiðsli eins og mörg önnur lið en það þýðir ekkert að væla yfir því. Það vill oft vera þannig að þegar styttist í leik þá einhvernvegin batnar mönnum ótrúlega fljótt. Við fögnum því bara að menn séu að koma til baka og ég heyri ekki annað en að það séu nánast allir klárir.“

Stemmningin í bæjarfélaginu hefur farið stigvaxandi og þessa vikuna er fátt annað rætt en fótbolti. Guðmundur segist finna fyrir spenningnum en það sé þó engin pressa á liðinu. „Það er mjög góð stemmning í bænum og við verðum að nýta okkur það sem meðbyr. Það er bara almenn gleði í bæjarfélaginu og það er gaman að taka þátt í því. Liðið er að spila í fyrsta skipti í efstu deild og við ætlum bara að njóta þess,“ segir Guðmundur.

Á kynningarfundi sem Selfyssingar héldu um síðustu helgi sagði Guðmundur að liðið hefði sömu markmið og KR-ingar. „Miðað við það sem ég hef heyrt frá þjálfara KR þá er ég sammála honum. Það eru mörg sterk lið í deildinni og öll stefna þau á sigur í hverjum leik og það er að sjálfsögðu okkar markmið líka. Ég væri mjög ánægður ef liðið næði að halda sæti sínu í deildinni og það er ekkert leyndarmál að það er stefnan hjá okkur. Ég er svo sjálfur með mín markmið sem ég ætla ekkert að vera að flagga. Það verður bara að koma í ljós hversu ánægður ég verð í haust.“

Fyrsti leikur Selfyssinga er gegn nágrönnum sínum í Árbænum. Mikill samgangur hefur verið milli félaganna á síðustu árum og á morgun verða fimm leikmenn á leikskýrslu sem hafa leikið með báðum liðunum. En hvernig leik á þjálfarinn von á? „Ég hef séð til Fylkismanna í vor og þeir eru, eins og sýndi sig á síðustu leiktíð, með geysilega öflugt lið. Við þurfum að eiga mjög góðan leik til að fá eitthvað út úr honum. Lið sem Óli Þórðar þjálfar hafa alltaf lagt sig mikið fram og við verðum að vera í toppstandi til að verða ekki undir í baráttunni,“ segir Guðmundur og bætir við að reynslulítið lið eins og Selfoss þurfi að eiga toppleik í hverri umferð til að standa sig í deildinni. „Við þurfum að leggja upp með að bæta okkur með hverjum leik. Þetta er allt annað umhverfi heldur en flestir leikmanna liðsins hafa tekið þátt í áður. Það eru erfiðari leikir og betri andstæðingar en það er áskorun sem menn verða að takast á við.“

Þjálfarinn gefur lítið fyrir þær spár sem gerðar hafa verið í vor en þar eru Selfyssingar nær undantekningalaust í fallsæti. „Ég held að þetta sé eðlilegt. Við höfum ekki verið að bæta við okkar leikmannahóp og erum nánast með sama lið og spilaði í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Þannig að það er ekkert óeðlilegt við að okkur sé spáð í neðstu sætin en það er okkar að sýna að þetta er bara spá. Mér hefur yfirleitt verið spáð í efri hlutann með mínum liðum þannig að þetta er nýtt fyrir mig, en truflar mig ekki neitt,“ sagði Guðmundur að lokum.