Með fjögur stig inn í jólafríið

Hamarskonur biðu lægri hlut þegar liðið mætti Haukum í Iceland Express-deildinni í körfubolta í dag. Lokatölur á Ásvöllum voru 81-64.

Liðin voru mistæk í fyrsta leikhluta en Haukar komust í 9-4 þegar fjórar mínútur voru búnar af leiknum. Þær skoruðu hins vegar ekki stig síðustu sex mínúturnar á meðan Hamar raðaði niður sjö stigum í röð og leiddi að loknum 1. leikhluta, 9-11. Haukar byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust í 22-13 en Hamar svaraði fyrir sig á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 30-29 í leikhléinu.

Fyrstu mínútur 3. leikhluta voru jafnar en eftir fjórar mínútur gerðu Haukar út um leikinn með því að skora sextán stig í röð og breyta stöðunni í 52-38. Staðan var 54-41 þegar 4. leikhluti hófst og Haukar bættu enn í forskotið á fyrstu mínútum hans. Hamri gekk ekkert að klóra í bakkann og Haukar unnu sanngjarnan sigur að lokum.

Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 25 stig. Katherine Graham skoraði 17 stig og Marín Laufey Davíðsdóttir 10.

Hamar fer inn í jólafríið með fjögur stig í pokanum á botni deildarinnar.