McGuire með eitt stig gegn Keflavík

Hamar tapaði stórt, 86-47, þegar liðið heimsótti Keflavík í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Jafnræði var með liðunum framan af 1. leikhluta. Keflavík skoraði hins vegar síðustu sex stigin í leikhlutanum og leiddi 22-12 að honum loknum.

Í 2. leikhluta héldu Hamarskonur í við Keflvíkinga fyrstu fimm mínúturnar. Staðan var þá 28-20 en þá skoruðu Keflvíkingar sautján stig í röð og gerðu nánast út um leikinn. 45-20 í hálfleik.

Keflavík skoraði fyrstu níu stigin í síðari hálfleik, og voru þar komnar með 26 stig í röð og staðan orðin 54-20. Hamar náði 2-14 áhlaupi undir lok 3. leikhluta en staðan var 62-38 að honum loknum og úrslitin ráðin.

Athygli vekur að erlendi leikmaður Hamars, Suriya McGuire, skoraði aðeins eitt stig í leiknum þrátt fyrir að spila tæpar 25 mínútur, en hún var með -10 í framlagseinkunn.

Tölfræði Hamars: Salbjörg Sævarsdóttir 12 stig/8 fráköst/3 varin skot, Nína Jenný Kristjánsdóttir 10 stig/6 fráköst/3 varin skot, Heiða Björg Valdimarsdóttir 8 stig/7 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 7 stig/4 fráköst, Jenný Harðardóttir 2 stig, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 2 stig/4 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 2 stig, Margrét Hrund Arnarsdóttir 2 stig, Suriya McGuire 1 stig/4 fráköst.

Fyrri grein„Við vorum ekki sjálfum okkur líkir“
Næsta greinStraumlaust í Þorlákshöfn og Rangárþingi í nótt