Matthías skallaði Ægi inn í undanúrslitin

Ægismenn eru komnir í undanúrslitin í 3. deild karla í knattspyrnu eftir 1-1 jafntefli gegn Hugin á Seyðisfirði í kvöld.

Ægir sigraði 1-0 í fyrri leiknum í Þorlákshöfn og var því í vænlegri stöðu fyrir leikinn í kvöld. Aðstæður á Seyðisfirði voru ekki upp á marga fiska, rennblautur völlur og gekk á með hvassviðri.

Strax á 6. mínútu leiksins átti Milan Djurovic góða sendingu fyrir markið þar sem Matthías Björnsson stangaði boltann af öryggi í netið – enda með eitt besta ennið í bransanum.

Mark Ægis þýddi að Huginsmenn þurftu að skora þrjú mörk til að knýja fram sigur. Þeir voru meira með boltann og sköpuðu sér fleiri færi en Ægisvörnin stóðst flestöll áhlaup þeirra enda ekki vön að hleypa miklu í gegnum sig.

Staðan var 0-1 í hálfleik en á 62. mínútu dró til tíðinda þegar Ingi Rafn Ingibergsson fékk sitt annað gula spjald, og það rauða í kjölfarið, fyrir óþarfar rökræður við dómara leiksins.

Fjórum mínútum síðar minnkuðu Huginsmenn muninn með stórglæsilegu skoti utan af velli upp í samskeytin. Þetta var fyrsta markið sem Ægismenn fengu á sig í rúmar 600 mínútur og nær komust Seyðfirðingar ekki þrátt fyrir ágætar tilraunir á lokakafla leiksins.

Ægir mætir Magna frá Grenivík í undanúrslitunum. Fyrri leikurinn verður á Grenivík á laugardaginn en sá síðari miðvikudaginn 12. september í Þorlákshöfn.