Matthías og Helgi semja við Selfoss

Handknattleiksmennirnir Matthías Halldórsson og Helgi Hlynsson framlengdu í dag samninga sína við Selfoss til ársins 2015.

Báðir voru þeir lykilmenn í liði Selfoss í 1. deildinni í vetur og Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, sagði í samtali við sunnlenska.is að þar á bæ væru menn gríðarlega ánægðir með að Matthías og Helgi hefðu framlengt samninga sína við félagið.

“Þeir eru framtíðarmenn í íslenskum handbolta og leikmenn sem hafa trú á því sem í gangi er á Selfossi,” sagði Arnar.

Matthías er vinstri skytta og sterkur varnarmaður en hann skoraði um 4 mörk í leik að meðaltali í fyrravetur. Helgi er markmaður og var með um 50% markvörslu í síðari umferðinni. “Báðir eru þeir Selfyssingar og með hjartað á réttum stað og það skiptir miklu máli,” sagði Arnar.

Selfyssingar fengu Akureyringinn Jóhann Gunnarsson til liðs við sig á dögunum og að sögn Arnars eru þeir með fleiri járn í eldinum.

Mikill hugur er í Selfyssingum sem munu leika á nýju parketgólfi á komandi keppnistímabili en það verður tekið í notkun á Unglingalandsmótinu um helgina. Fyrsti æfingaleikurinn á nýja gólfinu er 14. ágúst gegn Íslandsmeisturum HK og meðal annarra verkefna hjá Selfyssingum á næstunni er hið árlega Ragnarsmór sem fram fer helgina 5.-8. september.