Matthías leiddi Ægi til sigurs

Ægir lagði Njarðvík að velli, 2-3, á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Matthías Björnsson skoraði tvö mörk fyrir Ægi.

Matthías kom inná sem varamaður snemma leiks þegar Andri Sigurðsson meiddist og Matthías var fljótur að láta að sér kveða. Örfáum andartökum eftir að hann kom inná hafði hann komið Ægi yfir með rándýru marki. Jóhann Óli Þórbjörnsson sendi boltann fyrir markið þar sem Matthías sneiddi boltann með skalla af nærsvæðinu. Þetta var eina mark fyrri hálfleiks.

Njarðvíkingar náðu að jafna metin í upphafi síðari hálfleiks og staðan var 1-1 þar til tuttugu mínútur voru eftir, en lokakaflinn var fjörugur.

Aron Ingi Davíðsson kom Ægi yfir á 70. mínútu en sjö mínútum síðar jöfnuðu Njarðvíkingar aftur. Ægismenn fengu svo vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka eftir að brotið var á Breka Bjarnasyni í vítateig Njarðvíkur. Það var enginn annar en Matthías Björnsson sem fór á vítapunktinn og tryggði Ægismönnum sigurinn af miklu öryggi.

Ægismenn ruku upp töfluna með þessum sigri en þeir eru nú í 6. sæti deildarinnar með 6 stig að loknum fjórum umferðum.

Næsti leikur liðsins er á heimavelli á fimmtudaginn gegn toppliði Gróttu.