Massagóður sigur hjá Þórsurum

Luciano Massarelli skoraði 27 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs unnu góðan sigur á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld.

Gestirnir skoruðu fyrstu sex stigin í leiknum en þá mættu meistararnir til leiks og tóku forystuna, 25-19 að loknum 1. leikhluta. Aftur gerðu Stjörnumenn áhlaup og þeir skoruðu þrettán stig í röð í upphafi 2. leikhluta. Leikhlutinn var hnífjafn eftir það og liðin skiptust á um að hafa forystuna en Stjarnan átti lokaorðið í fyrri hálfleik og jafnaði 50-50 áður en flautan gall.

Stjarnan komst í 50-55 í upphafi seinni hálfleiks en þá skelltu Þórsarar í lás. Þeir spiluðu frábæra vörn og Stjarnan skoraði aðeins fimm stig á átta mínútna kafla. Þór komst í 70-60 og tilþrifin í vörninni héldu áfram að gleðja í 4. leikhluta þar sem Þór tryggði sér sanngjarnan sigur, 88-75.

Luciano Massarelli var stigahæstur Þórsara með 30 stig og Ronaldas Rutkauskas var sömuleiðis öflugur með 15 stig og 11 fráköst.

Þór er nú í 3. sæti deildarinnar með 18 stig en Stjarnan er í 6. sæti með 14 stig.

Tölfræði Þórs: Luciano Massarelli 30/5 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 15/11 fráköst/6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 14/12 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 11, Glynn Watson 11/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 7.

Fyrri greinHrunamenn og Selfoss unnu góða sigra
Næsta greinTvö útköll í Árnessýslu í dag