Marvin funheitur í seinni hálfleik

Þórsarar töpuðu fyrir Marvin Valdimarssyni og félögum í Stjörnunni þegar liðin mættust í Iceland Express-deildinni í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Marvin fór illa með Þórsara í seinni hálfleik og var stigahæstur gestanna.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn. Þór leiddi allan 1. leikhlutann en munurinn var aldrei meiri en fjögur stig. Stjarnan skoraði síðustu körfu leikhlutans og jafnaði 20-20.

Gestirnir komust yfir í upphafi 2. leikhluta og náðu mest átta stiga forskoti, 32-40, en Þór saxaði á forskotið fyrir leikhlé og staðan var 45-47 í hálfleik.

Jafnræðið hélt áfram í 3. leikhluta og hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu. Þórsarar leiddu lengst af leikhlutans en staðan var 71-71 að honum loknum.

Síðasti fjórðungurinn var spennuþrunginn. Í stöðunni 75-75 skoraði Stjarnan átta stig í röð en Þórsarar minnkuðu muninn strax í þrjú stig, 80-83. Þá tók Stjarnan aftur á sprett og náði tíu stiga forskoti, 80-90, þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Þórsarar náðu ekki að svara þessu áhlaupi Stjörnunnar og lokatölur urðu 86-97.

Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 24 stig en besti maður Þórsara var Michael Ringgold sem skoraði 22 stig og tók 16 fráköst. Darri Hilmarsson skoraði 15 og Marco Latinovic 12.

Selfyssingurinn Marvin Valdimarsson var besti maður Stjörnunnar í leiknum en hann skoraði 25 stig í leiknum, þar af 21 í seinni hálfleik. Stjörnumenn eru með mun meiri breidd í hópnum heldur en Þórsarar og það sýndi sig í stigaskoruninni en Stjarnan fékk 20 stig af bekknum á móti 4 stigum Þórsara.