Martraðarbyrjun í Umhyggjuhöllinni

Franck Kamgain var stigahæstur Hvergerðinga með 26 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eyðimerkurganga Hamarsmanna í úrvalsdeild karla í körfubolta heldur áfram en í kvöld tapaði liðið gegn Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ, 101-75.

Byrjunin var skelfileg hjá Hamri og segja má að úrslitin hafi verið ráðin eftir fyrsta leikhluta. Staðan var 42-8 að honum loknum. Hvergerðingar hresstust í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í 60-36 fyrir leikhlé. Seinni hálfleikurinn var í jafnvægi en forskot Stjörnunnar var öruggt allan tímann.

Franck Kamgain var stigahæstur Hvergerðinga með 26 stig, Dragos Diulescu skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, Ragnar Nathanaelsson skoraði 14 stig og tók 9 fráköst og Aurimas Urbonas skoraði 9 stig og tók 9 fráköst.

Hamar er sem fyrr á botni deildarinnar án stiga, þegar fjórtán umferðum er lokið. Stjarnan er í 6. sæti með 16 stig.

Fyrri greinLeitað að vitnum að umferðarslysi
Næsta greinGul viðvörun á föstudagskvöld