Markús hljóp um öll fjöll

HSK sendi einvalalið á Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið var á Hvammstanga um síðustu helgi.

Þar mættu fjórir öðlingar HSK en sá fimmti sem ætlaði, Tómas Jónsson, varð að sitja heima vegna meiðsla. Hinir voru Árni Einarsson, Jóhannes Sigmundsson og bræðurnir Jón og Markús Ívarssynir.

Jóhannes Sigmundsson tók þátt í golfinu og stóð sig vel. Hinir þrír kepptu í frjálsíþróttum. Árni Einarsson sigraði í elsta flokknum í kúluvarpi, 80-84 ára og kastaði vel á níunda metra. Hann er á leið á öldungamót Norðurlanda í Finnlandi í vikunni.

Jón M. kastaði kúlu og varð annar. Markús Ívarsson lét ekki deigan síga í keppninni. Fimm mínútum eftir komuna á staðinn var hann kominn á fullt í boccia og stóð sig vel. Hann tók þátt í öllum frjálsíþróttagreinum, 60 m, kúluvarpi, langstökki og 3000 m og hlaut gull, 2 silfur og brons.

Daginn eftir sýndu bræðurnir góð tilþrif í ringo og svo tók Markús þátt í 12 km fjallaskokkki yfir Vatnsnesfjall. Hlaupaleiðin var illa merkt og Krúsi kappsamur að vanda hljóp langt úr leið og lengdi leiðina um næstum helming. Fleiri keppendur lentu í vandræðum og komu klukkutímum síðar að marki en ráð var fyrir gert.

Allir komu þó aftur og skemmtu sér vel í góðri samveru á Hvammstanga þótt kaldan blési á norðan. Ungmennafélagsandinn hélt hita á mönnum en vínandinn var víðs fjarri. Allir voru sammála um að þetta vildu þeir endurtaka við fyrsta tækifæri.

Fyrri greinÁfram unnið að kirkjubyggingu
Næsta greinLandsbankinn aðal styrktaraðili Brúarhlaupsins