„Markmiðið að gera betur en í fyrra“

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu hefst í dag en Selfoss heimsækir Stjörnuna í Garðabæinn í 1. umferðinni.

„Tilhlökkunin er mikil og mér líst mjög vel á komandi knattspyrnusumar. Liðið okkar er búið að æfa vel í vetur og við erum í betra standi en í fyrra. Hópurinn lítur bara nokkuð vel út og markmiðið okkar er að gera betur en í fyrra,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is.

Spáin mótiverar liðið
Selfoss varð í 6. sæti í Pepsideildinni í fyrrasumar en spámenn spá liðinu neðar í sumar, og jafnvel falli. Í spá formanna, þjálfara og fyrirliða er Selfossliðinu spáð 7. sæti, Morgunblaðið setur Selfoss einnig í 7. sætið en á fotbolti.net er Selfoss sett í 9. sætið, fallsæti.

„Þessar spár eru auðvitað til gamans gerðar og þetta hefur ekki mikil áhrif á mig. Ég held að þetta hjálpi okkur, þetta mótiverar liðið en eins og ég segi þá ætlum við að gera betur en í fyrra þannig að það er yfirlýst markmið hjá okkur að vera í topp fimm,“ segir Alfreð ennfremur og bætir við að hann búist við jafnri keppni.

„Ég held að þetta verði mun jafnari deild en í fyrra. Við byrjum á Stjörnunni á útivelli í kvöld og það verður erfiður leikur eins og allir aðrir leikir í þessari deild. En við munum mæta tilbúin í hvern einasta leik og láta Selfosshjartað slá.“

Fyrstu leikir Selfoss í Pepsi Max deildinni:
Fim. 2. maí kl. 19:15 Stjarnan-Selfoss
Þri. 7. maí kl. 19:15 Selfoss-Breiðablik
Mán 13. maí kl. 19:15 HK/Víkingur-Selfoss
Þri 21. maí kl. 19:15 Selfoss-Keflavík