Markaveisla hjá Stokkseyringum

Fjöldi leikja var í Lengjubikar karla og kvenna í knattspyrnu í dag. Stokkseyringar unnu meðal annars stórsigur á Kóngunum í C-deild karla.

Alexander Kristmannsson skoraði tvívegis fyrir Stokkseyri í upphafi leiks og Þórhallur Aron Másson bætti þriðja markinu við á 26. mínútu. Kóngarnir minnkuðu muninn í 1-3 á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Örvar Hugason skoraði tvö mörk fyrir Stokkseyri um miðjan seinni hálfleikinn en Kóngarnir náðu að minnka muninn í 2-5 á 78. mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði Þórhallur Aron annað mark sitt en níunda og síðasta mark Stokkseyringa var sjálfsmark Kónganna. Lokatölur 2-7.

Meistaraflokkar Selfoss héldu báðir norður á land í morgun og léku á Akureyri í dag. Kvennaliðið mætti Þór/KA en þeim leik lauk með 2-0 sigri heimamanna. Þetta er þriðja tap Selfossliðsins í A-deild Lengjubikarsins í röð.

Karlalið Selfoss lék gegn KA og þar kom Ragnar Þór Gunnarsson Selfyssingum yfir strax á 4. mínútu. Staðan var 0-1 allt þar til á 84. mínútu að KA jafnaði. KA náði svo að knýja fram 2-1 sigur með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma. Selfoss er enn án sigurs í deildinni eftir þrjá leiki.

Í gær áttust Ægir og Vestri við í B-deildinni. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli þar sem Guðmundur Garðar Sigfússon og Goran Jovanovski skoruðu mörk Ægis.

Fyrri greinHamar vann uppgjör botnliðanna
Næsta greinÞingborgarhópurinn heldur lopapeysukeppni