Markaveisla á Stokkseyri

Ingvi Rafn Óskarsson með boltann í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri tók á móti Skautafélagi Reykjavíkur í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn var galopinn allan tímann og gestirnir sigruðu að lokum 3-5.

Stokkseyringar fóru illa með færin í kvöld, SR komst í 0-2 í fyrri hálfleik en Stokkseyringar sóttu meira, fengu nokkur frábær færi og áttu meðal annars tvö skot í þverslána. Allt kom fyrir ekki og staðan var 0-2 í leikhléi.

Strax í upphafi seinni hálfleiks minnkaði Ingvi Rafn Óskarsson muninn í 1-2 og Stokkseyringar héldu áfram að sækja. Þeir skildu hins vegar allt eftir opið í vörninni og SR refsaði með þremur mörkum á þriggja mínútna kafla og staðan skyndilega orðin, 1-5.

Leikurinn var hins vegar langt frá því að vera búinn. Arilíus Marteinsson skoraði glæsilegt mark og minnkaði muninn í 2-5 skömmu síðar og á 74. mínútu skoraði Ingvi Rafn aftur. Heimamenn fengu frábær færi á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki og lokatölur urðu 3-5.

Stokkseyri er í 6. sæti B-riðils 5. deildarinnar með 3 stig en Skautafélagið er einu sæti ofar með 7 stig.

Fyrri greinSigurganga Selfoss heldur áfram
Næsta greinSet mótið orðið fastur liður á Selfossi