Markasúpa í Þorlákshöfn

Milos Djordevic, einn markaskorara Ægis, sækir að marki í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir sigraði KF örugglega í miklum markaleik í 2. deild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í dag.

Cristofer Rolin kom Ægi yfir strax á 5. mínútu með góðu skoti úr þröngu færi en gestirnir jöfnuðu rúmum fimm mínútum síðar. Ægismenn voru sterkari og Rolin fékk tvo dauðadauðafæri um miðjan fyrri hálfleikinn en þau fóru í súginn. Það kom þó ekki að sök því Milos Djordevic og Ágúst Karel Magnússon skoruðu undir lok fyrri hálfleiks og tryggðu Ægi 3-1 forystu í leikhléinu.

Seinni hálfleikur var markalaus allt þar til rúmar tíu mínútur voru eftir að gestirnir minnkuðu muninn í 3-2. Ægismenn héldu ró sinni og Anton Breki Viktorsson og Brynjólfur Þór Eyþórsson skoruðu báðir á lokamínútunum. Liðsmenn KF voru ekki hættir, þeir bættu við þriðja markinu á fimmtu mínútu uppbótartíma og lokatölur urðu 5-3.

Eftir sjö umferðir í deildinni eru Njarðvík og Ægir í toppsætunum með 19 stig en Njarðvík hefur betra markahlutfall. Næsti leikur Ægis er einmitt í Njarðvík á miðvikudaginn kemur.

Fyrri greinDrífa og Guðni sæmd fálkaorðu
Næsta greinTrampólín og tjöld á flugi í óveðrinu