Markasúpa hjá KFR – Ægir vann en Hamar tapaði

KFR lagði Augnablik í markaleik í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ægir vann Njarðvík í 2. deildinni en Hamar tapaði fyrir Reyni S.

Rangæingar voru í feiknastuði í sókninni þegar þeir heimsóttu Augnablik í Kópavoginn í kvöld. Augnablikar voru reyndar fyrri til að skora en Reynir Óskarsson jafnaði metin á 34. mínútu og tveimur mínútum síðar kom Hjörvar Sigurðsson KFR í 1-2 með marki úr vítaspyrnu. Heimamenn jöfnuðu hins vegar metin á 44. mínútu og staðan var 2-2 í hálfleik.

KFR bætti við þremur mörkum í síðari hálfleik en Andri Freyr Björnsson kom þeim yfir á 68. mínútu og Guðmundur Garðar Sigfússon breytti stöðunni í 2-4 á 83. mínútu. Augnablik minnkaði muninn á 90. mínútu en Helgi Ármannsson var fljótur að koma KFR í 2-5 og þær urðu lokatölur leiksins. KFR er í 6. sæti 3. deildarinnar með 12 stig.

Eyþór Guðnason kom Ægi yfir á 13. mínútu í Njarðvík og staðan var 0-1 í hálfleik. Arilíus Marteinsson bætti öðru marki við á 79. mínútu en þrátt fyrir að gestirnir klóruðu í bakkann mínútu síðar héldu Ægismenn forystunni til leiksloka.

Hvergerðingar eru ekki óvanir dramatík á lokamínútum leikjanna á Grýluvelli og viðureignin gegn Reyni Sandgerði bauð upp á sigurmark einni mínútu fyrir leikslok. Eftir markalausan leik stefndi allt í 0-0 jafntefli þangað til gestirnir skoruðu eina mark leiksins á 89. mínútu.

Með sigrinum fór Reynir uppfyrir Hamar og eru Hvergerðingar því komnir í fallsæti, 11. sætið með 9 stig. Ægismenn eru í 9. sæti með 11 stig eftir sigurinn á Njarðvík.

Fyrri grein„Ekki mjög stoltur af þessum tíma“
Næsta greinEllen og Eyþór á Sólheimum