Markaskorarinn áfram í uppsveitunum

George Rasvan fagnar einu af 43 mörkum sínum síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

ÍBU hefur framlengt samninginn við rúmenska markaskorarann George Rasvan og mun hann spila með Uppsveitum í nýrri 4. deild karla í knattspyrnu í sumar.

Þetta eru stórtíðindi og ánægjuleg fyrir Uppsveitamenn en Rasvan skoraði 43 mörk í 16 leikjum fyrir Uppsveitir á síðasta tímabili og var lang markahæsti leikmaður Íslandsmótsins.

Hann er þó ekki aðeins grimmur upp við markið heldur vinnusamur mjög og hleypur eins og stunginn grís í 90 mínútur ef þess gerist þörf, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá Uppsveitum.

Rasvan var eftirsóttur af öðrum liðum úr efri deildum eftir þetta frábæra gengi en hann valdi að endurnýja samninginn við ÍBU þar sem honum líður greinilega vel í sveitasælunni.

Fyrri greinGul viðvörun: Gæti komið til veglokana
Næsta greinHellisheiði og Þrengsli lokuð