Markaregn og markmannsvesen á Flúðum – Árborg vann nauðsynleg stig

Bjarki Rúnar við það að skora fyrsta mark Hamars. Sigurjón Reynisson og Haukur Friðriksson eru til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var markaregn og markmannsvesen þegar Uppsveitir og Hamar mættust í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma sóttu Árborgarar Skallagrím heim.

Hann var heldur skrautlegur fyrri hálfleikurinn í leik Uppsveita og Hamars á Flúðum. Uppsveitamenn voru í markmannsvandræðum og kölluðu út gamla markmanninn sinn, Hauk Friðriksson, þar sem bæði Björn Mikael Karelsson og Orri Ellertsson voru fjarri góðu gamni. Haukur var ekki mættur þegar flautað var til leiks og Víkingur Freyr Erlingsson, fyrirliði Uppsveita, tók því fram hanskana og spilaði fyrstu fimm mínútur leiksins, þar til Haukur mætti. Þar með var ekki öll sagan sögð því tuttugu mínútum síðar fékk Haukur beint rautt spjald fyrir að brjóta á leikmanni Hamars fyrir utan vítateiginn. Víkingur fór því aftur í markið og Uppsveitir léku manni færri í tæpar 70 mínútur.

Liðsmunurinn var ekki að hjálpa Uppsveitum en Hamarsmenn voru mun sterkari í leiknum. Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum en Daði Kolviður Einarsson náði að minnka muninn á 38. mínútu, áður en Máni Snær Benediktsson kom Hamri í 1-3 undir lok fyrri hálfleiks. Hamar lék á als oddi í seinni hálfleik og skoraði sex mörk. Þegar upp var staðið hafði Máni Snær skorað fjögur, Bjarki Rúnar þrennu og Guido Rancez og Przemyslaw Bielawski sitt markið hvor og leiknum lauk með 1-9 sigri Hvergerðinga.

Spenna í toppbaráttunni
Árborg heimsótti Skallagrím í Borgarnes og varð að vinna sigur til að halda lífi í toppbaráttunni. Fyrri hálfleikurinn var rólegur en Árborgarar fengu betri færi, sem nýttust ekki og staðan var 0-0 í hálfleik. Árborg herti tökin á heimamönnum í seinni hálfleik og leikurinn galopnaðist. Bæði lið fengu tvö dauðafæri áður en Hrvoje Tokic skoraði fyrir Árborg eftir frábæran undirbúning Kristins Sölva Sigurgeirssonar á 63. mínútu. Leikurinn fjaraði hratt út á lokakaflanum og Árborgarar fögnuðu vel í lokin.

Staðan í deildinni þegar ein umferð er eftir er þannig að Árborg er í 2. sæti með 35 stig en KFK er þar fyrir neðan með 33 stig og á leik til góða. Hamarsmenn sigla lygnan sjó um miðja deild, eru í 5. sæti með 24 stig en Uppsveitir eru á botninum með 3 stig.

Fyrri greinEldur í bíl á gámasvæðinu
Næsta greinStór hluti Selfossbæjar rafmagnslaus