Markaregn hjá Uppsveitum og Árborg

George Rasvan skoraði þrennu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir og Árborg unnu stórsigra í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld og George Rasvan, leikmaður Uppsveita, skoraði sitt tuttugasta mark í deildinni.

Á Flúðum var Knattspyrnufélag Miðbæjar í heimsókn hjá Uppsveitamönnum. Uppsveitir voru sterkari aðilinn allan leikinn en í fyrri hálfleik voru þeim nokkuð mislagðir fætur upp við mark andstæðinganna. Mörkin hefðu að ósekju getað orðið fleiri, en Máni Snær Benediktsson kom Uppsveitum yfir á 14. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Víkingur Freyr Erlingsson, 2-0 í hálfleik. Stíflan brast í seinni hálfleik og á síðasta hálftímanum röðuðu Uppsveitamenn inn mörkum. George Rasvan skoraði þrennu og er þar með kominn með 20 mörk í fyrstu fimm umferðunum. Pétur Geir Ómarsson og Ernir Vignisson bættu við mörkum fyrir Uppsveitir og lokatölur urðu 7-0.

Á sama tíma vann Árborg mikilvægan sigur á Berserkjum/Mídasi á útivelli. Andrés Karl Guðjónsson kom Árborg yfir strax á 1. mínútu leiksins og hann var aftur á ferðinni á 33. mínútu. Bróðir hans, Sigurður Óli, bætti þriðja markinu við á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi var 0-3. Það var mikið fjör í upphafi seinni hálfleiks þegar liðin skoruðu fimm mörk á tíu mínútna kafla. Aron Fannar Birgisson skoraði tvívegis fyrir Árborg og Magnús Ingi Einarsson eitt en staðan á 59. mínútu var orðin 6-2. Það voru Árborgarar sem áttu lokaorðið á Gunnar Fannberg Jónasson tryggði þeim 7-2 sigur með marki á lokamínútunni.

Það er sunnlensk sveifla í C-riðlinum því Uppsveitir eru í toppsæti riðilsins með fullt hús stiga, 15 stig, og Árborg er í 2. sæti með 12 stig.

Fyrri greinHamar tapaði í hörkuleik
Næsta greinBanaslys á Mýrdalssandi