Markalaust þegar Fríða mætti á völlinn

Jóhanna og Hólmfríður komu báðar inná á 72. mínútu, Jóhanna í sínum fyrsta leik og Fríða í sínum 335. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti ÍBV í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Þrátt fyrir fjörugan leik og fjölda færa varð niðurstaðan 0-0 jafntefli.

Selfyssingar voru miklu sterkari í fyrri hálfleik og fengu fjölda færa. Þær hefðu getað klárað leikinn í fyrri hálfleik en færanýtingin var 0%. Leikurinn snerist algjörlega við í seinni hálfleiknum, ÍBV hafði undirtökin og átti nokkrar góðar sóknir og fín færi en boltinn vildi alls ekki í netið.

Markmenn beggja liða áttu ágætan leik en þurftu þó ekki að hafa mikið fyrir hlutunum, það voru framherjarnir sem voru ekki á tánum í kvöld.

Öllum að óvörum var Hólmfríður Magnúsdóttir búin að taka skóna af hillunni og mætt til leiks með Selfyssingum í kvöld. Það var skemmtileg stund þegar Selfoss gerði tvöfalda skiptingu á 72. mínútu og inná komu hin 38 ára gamla Hólmfríður í sínum 335. leik og hin 16 ára gamla Jóhanna Elín Halldórsdóttir frá Eyrarbakka í sínum 1. leik.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 15 stig, en ÍBV er í 4. sæti með 18 stig.

Fyrri greinSveitarfélagið styrkir Ingunni vegna drónakaupa
Næsta greinSelfoss náði jafntefli gegn botnliðinu