Markalaust jafntefli við botnliðið

Selfyssingar töpuðu mikilvægum stigum gegn botnliði HK þegar liðin gerðu markalaust jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Selfyssingar náðu fljótlega undirtökunum í leiknum en komust ekki mikið áleiðis gegn vörn HK. Selfyssingar sóttu meira en HK átti ágætar sóknir inn á milli þó að hvorugu liðinu tækist að búa til opin færi.

Heimamenn áttu besta færi fyrri hálfleiks á 37. mínútu en Jóhann Ólafur Sigurðsson varði nokkuð auðveldlega skot beint á sig af markteigshorninu.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Selfoss var meira með boltann en tókst ekki að brjóta vörn HK á bak aftur.

Þeir komust þó nálægt því strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks þegar varnarmaður HK bjargaði á línu eftir hörkuskot frá Ivar Skjerve. Á 60. mínútu komst Viðar Kjartansson síðan í gott færi en hitti ekki á rammann.

Selfoss var sterkari aðilinn og var meira með boltann en HK átti líka sína spretti og þeir klúðruðu m.a. algjöru dauðafæri á 68. mínútu þegar sóknarmaður þeirra þrumaði boltanum yfir markið af eins meters færi.

Leikurinn opnaðist nokkuð undir lokin og bæði lið áttu álitlegar sóknir. Sævar Þór Gíslason slapp innfyrir á 87. mínútu og féll eftir að varnarmaður HK fór í bakið á honum en Sævar fékk gult spjald fyrir leikaraskap. Selfyssingar voru mjög óhressir með þennan dóm og eitthvað virtust taugarnar vera of þandar á lokamínútunum því að í uppbótartíma fékk Joe Tillen tvö gul spjöld fyrir síendurtekin mótmæli og verður í leikbanni þegar Selfoss tekur á móti Þrótti í næstu viku.

Þrátt fyrir að tapa tveimur stigum gegn botnliðinu eru Selfyssingar í ágætri stöðu í 2. sæti deildarinnar, með 32 stig og sjö stiga forskot á Hauka sem sitja í 3. sæti. Sex umferðir eru eftir af deildinni.