Markalaust í Laugardalnum

Kaylan Marckese var frábær á milli stanganna í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Þróttur skildu jöfn í markalausum og frekar tíðindalitlum leik í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á gervigrasinu í Laugardal í kvöld.

Það var lítið að frétta framan af leik en þegar leið á fyrri hálfleikinn sóttu Selfyssingar í sig veðrið, en náðu ekki að koma boltanum í netið þrátt fyrir ágætar sóknir.

Það var jafnræði með liðunum í seinni hálfleik. Þróttur fékk gott færi í upphafi seinni hálfleiks en Kaylan Marckese, markvörður Selfoss, varði mjög vel. Marckese stóð vel fyrir sínu í kvöld en minna bit var í sóknarleik Selfyssinga. Þó fékk Hólmfríður Magnúsdóttir ágætt færi á 63. mínútu en skallaði rétt framhjá.

Selfoss herti tökin þegar leið á leikinn en færin voru teljandi á fingrum annarrar handar. Hinu megin á vellinum bjargaði Marckese andlitinu fyrir Selfyssinga á 77. mínútu þegar hún átti stórbrotna markvörslu eftir þrumuskot Þróttara.

Selfyssingar luku leik manni færri því Hólmfríður fékk sitt annað gula spjald á 90. mínútu og verður því í leikbanni þegar Selfoss fær Þór/KA í heimsókn næstkomandi sunnudag.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 7 stig, en nýliðar Þróttar hafa komið mjög á óvart og eru í 7. sæti með 5 stig að loknum fimm umferðum.

Fyrri greinBjarni Hlynur ráðinn sveitarstjóri tímabundið
Næsta greinSuðurlandsdjazz á pallinum við Hótel Selfoss