Markalaust í Hveragerði – Stokkseyri tapaði

Jón Aðalsteinn Kristjánsson og lærisveinar hans náðu í eitt stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og KH skildu jöfn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri tapaði gegn Smára.

Niðurstaðan í leik Hamars og KH var markalaust jafntefli en margir spá því að þarna hafi mæst væntanleg topplið í B-riðlinum. Það var því talsvert í húfi í Hveragerði í kvöld en þrátt fyrir ágæt tilþrif beggja liða í hörkuleik, tókst hvorugu að skora.

Í Kópavogi kom Luis Lucas Stokkseyringum yfir á 13. mínútu en Smáramenn jöfnuðu á 35. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Smári skoraði síðan tvö mörk á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiks. Það virtist slá Stokkseyringa út af laginu því þeir náðu ekki að svara fyrir sig, en Smári bætti fjórða markinu við á 61. mínútu og lokatölur urðu 4-1.

Staðan í B-riðlinum er nú þannig að KH og Hamar eru jöfn á toppnum með 7 stig en KH hefur mun betra markahlutfall. Stokkseyri er í 6. sæti með 3 stig.

Fyrri greinHamar Íslandsmeistari í blaki karla
Næsta greinÆvintýraleiðsögunám án staðsetningar