Markalaust á Króknum

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingum tókst ekki að koma boltanum í netið þegar liðið heimsótti botnlið Tindastól á Sauðárkrók í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag. Stólarnir skoruðu ekki heldur og lokatölur urðu 0-0.

Það var hávaðarok og 20 stiga hiti á Sauðárkróki og vindurinn hafði svo sannarlega áhrif á leikinn. Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik þó að þeim hafi gengið illa að stýra boltanum með vindinn í bakið. Tindastóll fékk fyrsta færi leiksins á 10. mínútu en Guðný Geirsdóttir varði vel og í kjölfarið fengu Selfyssingar tvö fín færi, meðal annars var bjargað á línu eftir skot frá Evu Núru Abrahamsdóttur.

Seinni hálfleikurinn var daufur og tilþrifalítill. Selfyssingum gekk lítið að sækja á móti rokinu en fengu þó besta færið. Emma Checker, fyrirliði, skallaði að marki eftir hornspyrnu en aftur björguðu Stólarnir á línu.

Selfoss fer því heim með eitt stig í rútunni og situr í 3. sæti með 14 stig. Tindastóll er áfram á botninum með 5 stig.

Fyrri greinTinna og Vilius bestu leikmenn Selfoss
Næsta greinMannlaus bátur fannst á Álftavatni