Marinó Fannar íþróttamaður ársins

Langhlauparinn Marinó Fannar Garðarsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2014 hjá Ungmennafélagi Gnúpverja á aðalfundi félagsins á dögunum.

Marinó Fannar er fæddur 1979 og er frá Minni-Mástungu. Hann býr á Selfossi en keppir alltaf stoltur undir nafni Ungmennafélags Gnúpverja.

Í umsögn frá félaginu segir að Marinó Fannar sé mikill hlaupari og frábær fyrirmynd fyrir alla í sveitinni þegar kemur að hreyfingu og afrekum. Hann starfar sem sjómaður en nýtir frítíma sinn í langhlaup og tók þátt fimm langhlaupum sumarið 2014. Þar má nefna 10 km Flóahlaup, 25 km Grafningshlaup, 55 km Laugavegshlaup og 50 mílna Hengils Ultra hlaup. Einnig setti hann á fót hlaupið Flúði heim í fyrrasumar þar sem hlaupið er frá Flúðum heim í Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi, í nokkuð beinni línu yfir fjöll og ár á leiðinni.

Marinó Fannar var fyrirliði frjálsíþróttaliðs UMFG á Héraðsmótinu síðastliðið sumar og smalaði saman góðum hópi sem sigraði í liðakeppni á mótinu. Hann keppti í öllum greinum sem í boði voru, dró alla Gnúpverja sem tiltækir voru til að taka þátt á mótinu og fékk alla liðsmenn til að keppa í greinum. Hann var góður leiðtogi með ungmennafélagsandann að leiðarljósi.