Marín og Smári bikarmeistarar

Marín Laufey Davíðsdóttir og Smári Þorsteinsson, HSK, tryggðu sér bæði bikarmeistaratitla á Bikarglímu Íslands sem fram fór í íþróttahúsi Kennaraháskólans í gær.

Marín sigraði í opnum flokki kvenna eftir bráðfjöruga úrslitaviðureign við Guðbjörtu Þorgrímsdóttur, GFD. Marín varð svo í 4. sæti í sínum þyngdarflokki, +65 kg flokki.

Smári sigraði í -80 kg flokki karla og varð síðan í 7.-8. sæti í opnum flokki karla ásamt liðsfélaga sínum, Ingibergi J. Sigurðssyni.

Í -65 kg flokki varð Guðrún Inga Helgadóttir í 3. sæti og í +65 kg flokki varð Brynhildur Hrönn Sigurjónsdóttir í 6. sæti. Brynhildur varð einnig sjöunda í opnum flokki kvenna.