Marín Laufey glímudrottning Íslands í sjötta sinn

Sunnlensku keppendurnir á Íslandsglímunni, (f.v.) Sigurður, glímudrottningin Marín Laufey, Hreinn Heiðar og Gústaf. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson

Síðastliðinn laugardag fór 113. Íslandsglíman fram á Laugarvatni en þetta var í fyrsta sinn sem Íslandsglíman fer fram á Laugarvatni.

Í ár var keppt um Grettisbeltið í 113. skiptið og keppni um Freyjumenið var haldin í 24. sinn. Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var heiðursgestur og afhenti verðlaun að keppni lokinni.

Marín Laufey Davíðsdóttir, úr HSK og keppandi Umf. Þjótanda, mætti sterk til leiks og vann allar sínar glímur örugglega og vann þar með Freyjumenið í sjötta sinn. Hún er þar með orðin sigursælasti keppandi Íslandsglímunnar í kvennaflokki frá upphafi, ásamt Svönu Hrönn Jóhannsdóttur.

Marín Laufey vann einnig Fegurðarverðlaun Íslandsglímu kvenna og hlaut að launum farandgripinn Rósina sem veitt er til þess keppanda sem þótti glíma best að mati þriggja manna dómnefndar. Þess má geta að Marín hefur unnið Rósina í öll sjö skiptin sem hún hefur tekið þátt í Íslandsglímunni.

Tíu keppendur voru skráðir til leiks í keppni um Grettisbeltið og níu luku keppni, þar af voru þrír keppendur frá HSK. Fjórar konur glímdu um Freyjumenið og var Marín Laufey sú eina frá HSK.

Þremenningarnir frá HSK sem kepptu í karlaflokki voru allir að keppa á sinni fyrstu Íslandsglímu en aðeins þrisvar áður hefur það gerst að HSK hafi átt svo marga keppendur um Grettisbeltið, árin 1969, 1970 og 2002. Hreinn Heiðar Jóhannsson úr Umf. Laugdæla, sem tók í vetur fram glímubeltið eftir 10 ára hlé og varð á dögunum Skjaldarhafi Skarphéðins, hlaut fimm vinninga og varð í fjórða sæti. Tungnamennirnir Gústaf Sæland og Sigurður S. Ásberg Sigurjónsson voru með þrjá vinninga og enduðu í 5.-6. sæti.

Þórður Páll Ólafsson úr UÍA varð glímukóngur Íslands í fyrsta sinn og er hann sá 38. í röðinni frá upphafi til að að hljóta þann sæmdartitil.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 2/2024- Úrslit
Næsta greinGjaldfrjáls bókasöfn fyrir íbúa Rangárþings ytra