Marín Laufey glímudrottning í fjórða sinn

Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsinu í Frostaskjóli á dögunum. Keppnin var afar jöfn og skemmtileg og áhorfendur urðu vitni að spennandi keppni frá upphafi til enda.

Í glímunni um Freyjumenið sigraði Marín Laufey Davíðsdóttir HSK og hlaut sæmdarheitið glímudrottning Íslands í fjórða sinn. Í glímunni um Grettisbeltið sigraði Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, UÍA og hlaut þar með sæmdarheitið glímukóngur Íslands í fyrsta sinn.

Marín Laufey hlaut fimm vinninga af sex mögulegum. Hún varð að glíma hreina úrslitaglímu um Freyjumenið við Margréti Rún Rúnarsdóttir úr UÍA og þar hafði hún betur.

Jana Lind Ellertsdóttir úr glímuliði HSK tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsglímu og gerði sér lítið fyrir og náði fjórum vinningum og vann til bronsverðlauna. Hún var sú eina sem náði að leggja glímudrottninguna og tapaði aðeins einni viðureign.

Heildarúrslit eru á www.glima.is.

Fyrri greinLífsmyndir Tryggva og Finns Bjarka í Gallerí Ormi
Næsta greinÍslandsbanki áfram aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildarinnar