Marín Laufey efst á styrkleikalista GLÍ

Glímusamband Íslands hefur birt nýjan styrkleikalista Glímusambandsins í karla- og kvennaflokkum og eru fjórar HSK konur í efstu átta sætunum í kvennaflokki.

Marín Laufey Davíðsdóttir er í efsta sæti með 71,67 stig, Guðrún Inga Helgadóttir er í fjórða sæti með 55 stig, Dagbjört Henný Ívarsdóttir er í sjötta sæti með 43,3 stig og Hanna Kristín Ólafsdóttir er í því áttunda með 35,6 stig.

Stefán Geirsson er sá eini sem kemst á listann yfir stigahæstu glímumenn landsins í karlaflokki, en hann er í fjórða sæti með 62.5 stig. Líkt og undanfarin ár er Pétur Eyþórsson Ármanni í efsta sæti með 78 stig.