María Ögn og Elvar Örn sigruðu

Hjólreiðakeppnin Kia Gullhringurinn var haldin í fjórða sinn á Laugarvatni í gær en algjör sprenging var á fjölda þátttakenda í ár. Um það bil 700 keppendur hjóluðu af stað inn í kvöldið sem var fallegt í uppsveitunum í gærkvöldi.

Leiðin sem hjóluð er liggur frá Laugarvatni að Gullfossi og Geysi, beygt er inná Biskupstungnabraut og hún hjóluð alla leið að Þingvalla afleggjaranum í Grímsnesi, þaðan er hjólað að og yfir Lyngdalsheiði inn á Laugarvatn aftur, samtals um 106 kílómetrar. Aldrei hafa fleiri hjólreiðamenn hafið keppni á sama tíma en þeir nutu sannarlega stórbrotinnar náttúru uppsveitanna og veðurblíðunnar og komu allir heilir í mark þrátt fyrir nokkrar minniháttar skrámur.

Þau María Ögn Guðmundsdóttir HFR/Trek Örninn og Elvar Örn Reynisson HFR/Trek Örninn voru sigurvegarar dagsins. María Ögn, Íslandsmeistari og hjólreiðakona ársins 2014 er ósigruð í Kia Gullhringnum en hún hefur unnið öll fjögur árin sem keppnin hefur verið haldin. María sló eigið brautarmet frá árinu 2013 en þá hjólaði hún Gullhringinn á 2:59:27 en nýtt brautarmet hennar í ár er 2:59:08. Elvar Örn Reynisson kom fyrstur í mark í karlaflokki á glæsilegum tíma 2:50:44 sem um mínútu frá fyrra brautarmeti. Þetta er fyrsti sigur Elvars í A flokki keppninar.

Mikið var um dýrðir á Laugarvatni í gær en hálfgerð hjólreiðahátíð fór fram um allt þorpið og þegar mest var voru tæplega þrjú þúsund gestir á svæðinu. Sveitamarkaður, leiksvæði fyrir börnin, strandblakvöllur, vatnaboltar og sannkölluð sveitarómantík í loftinu.

Björgunarsveitarmenn frá Laugarvatni og Árborg gætu öryggis vegfarenda og keppenda og voru rástímar og framkvæmd keppninar unnin í náinni samvinnu við Vegargerðina og rekstraraðila á Laugarvatni sem tóku virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd mótins sem að öllu leyti tókst frábærlega.

Eigendur og aðstandendur Kia Gullhringsins þakka einlæglega þann velvilja sem allir sýndu framkvæmd keppninar.

Fyrri greinSnorri Þór tryggði sér titilinn
Næsta greinGrímsnes- og Grafningshreppur er fjölmennasta sveitarfélag á Suðurlandi