María og Jón Ingi keppa í Danmörku

María og Jón Ingi ásamt Örvari þjálfara. Ljósmynd/hvatisport.is

Íslenska landsliðið í kraftlyftingum er á förum til Viborg í Danmörku þar sem heimsmeistaramót IPF í kraftlyftingum fer fram 14.-19. nóvember nk. Þrír íslenskir keppendur taka þátt í mótinu.

Í tengslum við HM verður haldið kraftlyftingamót á vegum Special Olympics International og þar munu tveir keppendur frá Íþróttafélaginu Suðra taka þátt, þau María Sigurjónsdóttir frá Mið-Mörk undir Eyjafjöllum og Jón Ingi Guðfinnsson frá Selfossi. Með í för verður Örvar Arnarson, þjálfari þeirra.

Í maí síðastliðnum gerðu KRAFT og Íþróttasamband fatlaðra með sér samstarfssamning með það fyrir augum að efla og auka þjónustu við fatlaða kraftlyftingamenn og -konur og er þessi þátttaka liður í því. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskir keppendur taka þátt í þessu móti en Special Olympics samtökin hafa unnið að auknu samstarfi við alþjóðasamtök í ýmsum greinum.

Þau María og Jón Ingi hafa æft lyftingar hjá Suðra í nokkur ár en þar hefur Örvar þjálfari byggt upp öfluga lyftingadeild. Þau María og Jón Ingi munu keppa í sínum greinum föstudaginn 18. nóvember en keppinautar þeirra koma frá Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Fyrri greinLabba á hlaupabretti með Tinu Turner í eyrunum
Næsta greinSunnlensku liðin sigruðu