Mari Järsk og Guðni forseti mæta í Mýrdalshlaupið

Hlauparar við ráslínuna í Víkurfjöru. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Mýrdalshlaupið hefur tryggt sér sess meðal bestu og stærstu utanvegahlaupaviðburða á Íslandi síðustu ár og fer nú fram í 11. skipti þann 25. maí næstkomandi kl. 11.00 í Vík í Mýrdal. Allt skipulag og utanumhald hlaupsins er í höndum einnar fjölskyldu frá Vík, systkinanna Ásu, Guðna, Fríðu og Ástþórs, auk maka, foreldra, vina og vandamanna og um 40 sjálfboðaliða.

Keppt er í tveimur vegalengdum, 21 km með 1000 metra hækkun og 10 km með 500 metra hækkun, auk þess verður boðið upp á 3 km skemmtiskokk innanbæjar í Vík sem ræst er kl. 11.30.

Rúmlega 500 keppendur eru skráðir til leiks og þar á meðal er obbinn af fremstu hlaupurum landsins eins og undanfarin ár. Má þar nefna hlaupadrottningarnar Mari Järsk og Elísu Kristinsdóttir sem gerðu garðinn frægan í Bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa nú á dögunum. Halldóra Huld Ingvarsdóttir, Íris Anna Skúladóttir og Andrea Kolbeinsdóttir eru líka skráðar, en þær eru á leið á Evrópumót í utanvegahlaupum fyrir Íslands hönd í byrjun júní. Einnig ætla þeir Þorsteinn Roy Jóhannesson, Þorbergur Ingi Jónsson og Sigurjón Ernir Sturluson að keppa í Mýrdalnum áður en þeir halda á Evrópumótið í utanvegahlaupum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson er einnig skráður til leiks.

Hlaupið er ræst í fjörunni í Vík og hlaupa allir keppendur upp á Reynisfjall vestan við þorpið þar sem leiðir skilja. Þar hlaupa keppendur í lengra hlaupinu fram fjallið, yfir þjóðveginn og upp á Höttu, fjall austan megin við Vík og þaðan niður í Víkurþorp. Hlauparar í 10 km hlaupinu fara aftur niður Reynisfjall og í mark.

Hlaupið er eitt mest krefjandi utanvegahlaup á Íslandi vegna mikillar hækkunar og lækkunar, mikils bratta og fjölbreytts undirlags. Hjá mörgum er þetta hlaup hápunktur hlaupasumarsins, en hjá öðrum liður í undirbúningi fyrir lengri hlaup á Íslandi eða erlendis.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hlaupsins.

Fyrri greinÚtskrifuðust úr starfstengdu íslenskunámi
Næsta greinBrauðtertu- og ostakökukeppni Konungskaffis og Kaffi Krúsar